146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[15:24]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Spurningin mín til hv. þingmanns er ósköp einföld. Á að selja banka eða á ekki að selja banka?

Við erum að tala hér um, eins og stendur í nefndarálitinu, með leyfi forseta:

„Einn af veigamestu óvissuliðunum á tímabilinu sem stefnan nær til tengist sölu eigna ríkissjóðs, einkum hlutdeildar þeirra í viðskiptabönkunum.“

Eru áform um að selja bankana? Er það skilningur hv. þingmanns að á þessu kjörtímabili, á næstu fimm árum, muni fara fram undirbúningur að söluferli? Að það séu sérstök áform um að selja eignarhluti ríkisins í Íslandsbanka, Landsbankanum og mögulega Arion banka? Kemur það fram í fjármálaáætluninni? Því að eins og segir í nefndarálitinu:

„Ljóst er að niðurgreiðsla á skuldum ríkisins ræðst að miklu leyti af því hvernig til tekst með sölu þessara eigna.“

Er það skilningur hv. þingmanns að farið verði (Forseti hringir.) í sölu á ríkisbönkunum á þessu kjörtímabili?