146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[15:26]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, þetta eru fréttir, því að hæstv. fjármálaráðherra sagði hér fyrir skömmu, með leyfi forseta:

„Það eru engin sérstök áform um sölu á eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka og Landsbanka.“

Það virðist vera mikið ósamræmi milli þess sem nefndin telur fjármálastefnu vera að gera miðað við það sem hæstv. fjármálaráðherra hyggst gera. Hverju á maður að treysta? Er verið að fara að selja banka eða eru engin áform um að fara að selja banka? Hérna erum við ítarlega, eins og hv. þingmaður benti réttilega á, með áform og lagður er grunnur að því að selja banka.

Þá verð ég bara að spyrja: Er þetta eðlilegt? Að hæstv. ráðherra segi eitt og skilningur nefndarinnar sé annar?

Virðulegur forseti. Þetta er náttúrlega ekki hægt. Við verðum að fara að fá svör og svörin þurfa að stemma milli nefndarinnar, væntanlega, meiri hluta hennar, og hæstv. fjármálaráðherra. Hvernig á þetta að virka? Á að selja banka eða á ekki að selja banka?