146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[16:10]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er augljóslega snúið og vefst fyrir þeim. Eins og hv. þingmaður bendir á þá eru þetta þingmenn og ráðherrar hvor úr sínum flokknum. Kannski það hafi eitthvað með málið að gera? Vissulega verðum við líka að átta okkur á því að undir álitið skrifa þingmenn stjórnarflokkanna þannig að maður getur illa áttað sig á því hvort hér er um að ræða ágreining um meðferð þessa máls eða ekki. Auðvitað verðum við að fá það á hreint. Við þurfum að ræða þetta og fá á hreint því á sama tíma, eins og ég las upp hér áðan, var gerð skoðanakönnun á því hvað íslensku þjóðinni þætti og alla vega rétt um 70% hennar, áður en vogunarsjóðirnir og Goldman Sachs komu inn í málið, vildu ekki selja bankana. Auðvitað eigum við að hlusta á það. Það er engin trú á bankakerfinu enn þá. Við þurfum að vanda okkur. Þess vegna skil ég ekki hvernig þetta fer saman.

Ég tek undir með þingmanninum að hér er búið að gefa sér niðurstöðu. Það hefur vissulega verið heimild, 6. gr. heimild, til þess að selja bankana, þannig að það eru kannski ekki ný sannindi (Gripið fram í.) — 5. gr. já, þannig að ég held að það geti verið. Auðvitað veit maður ekkert hvort á að hafa meira gildi, hvort á að hafa meira vægi. Nefndarálitið, eins og okkur er sagt, á að skýra það með áætlunina ef við viljum gera breytingar þannig að ég gef mér það, af því að plaggið er búið að fá þinglega meðferð, að það sé þá nefndarálitið sem verði niðurstaðan. Ég get ekki litið öðruvísi á en svo því að annars er náttúrlega til lítils að fjalla (Forseti hringir.) um þingmálið ef það má ekki taka breytingum.