146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[16:21]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég verð að gera athugasemd við fundarstjórn vegna þess að ekki var tilgreint í tvígang undir hvaða lið viðkomandi hv. þingmaður tók þátt. Ég er komin upp undir liðnum um fundarstjórn forseta til að kvarta yfir því hvernig umræðu um þetta mikilvæga plagg hefur verið háttað. Hérna hefur hæstv. ráðherra verið í mýflugumynd, svona rétt látið sjá sig, og einn hv. stjórnarþingmaður er í salnum. Við erum að tala um tillögu til þingsályktunar sem á að gilda til 2022 og hún er þynnri en dömubindi. Eigum við að ræða það eitthvað? Það er ekkert í þessari þingsályktunartillögu, þessari stefnu. Það er ekkert í henni. Ég held að stjórnarþingmenn viti það og þess vegna eru þeir ekki hérna.