146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[16:25]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég verð að fá að koma hingað upp í annað sinn til að ítreka kvörtun mína um hvernig þingstörfum hefur verið háttað í þessum sal undanfarið, sér í lagi þegar við erum að reyna að eiga umræðu um eitt merkilegasta plagg næstu fimm ára. Það er einhvern veginn engin umræða um það. Til hvers er þessi málstofa ef meiri hlutinn er ekki tilbúinn að koma hingað upp og verja sinn málstað og eiga í rökræðum við hv. þingmenn um nákvæmlega það sem við þurfum að ræða, um fjármálastefnu fyrir 2017–2022?

Mér líður svolítið eins og draugar síðasta kjörtímabils svífi yfir vötnum, að það sé risastór meiri hluti sem þrýst geti öllum málum í gegn. Það er mjög mikilvægt að ríkisstjórnin geri sér grein fyrir því að hún er með minnsta mögulega umboð. Þess vegna þarf hún að taka því alvarlega. Hennar lýðræðislega umboð er jafn þunnt og þessi þingsályktunartillaga, þannig að það er ekkert til þess að hrópa húrra fyrir.