146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[16:53]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður nefndi fjármálaráð sem er einmitt mjög stór hluti af lögum um opinber fjármál, sérstaklega þá fjármálastefnunnar. En því er gert að kvitta undir að fjármálastefnan fari eftir þeim grunngildum sem sett eru fram í lögum um opinber fjármál. Það er vert að lesa úr áliti fjármálaráðs hvað varðar sjálfbærni, með leyfi forseta:

„Ekki er þó hægt að álykta um sjálfbærni skulda án þess að frekari stefna og greining liggi fyrir um áhrif lífeyrisskuldbindinga á skuldir hins opinbera sem og hagkerfið í heild sinni.“

Það er nefnilega svo að þessi fjármálastefna er dálítið götótt. Það vantar einmitt spá um þróun langtímaskuldbindinga, sérstaklega lífeyrisskuldbindinga, en einnig um eignir eins og nefnt er í áliti meiri hlutans.

Ég sem nefndarmaður í fjárlaganefnd bjóst við breytingu eftir að hafa spurt formann fjárlaganefndar hvort von væri á breytingartillögum því að svarið var alltaf já. Ég held að við höfum öll gert ráð fyrir að breytingartillögur kæmu byggðar á áliti fjármálaráðs. Ég hefði áhuga á að heyra skoðanir hv. þingmanns á fjármálaráði og hvort það sé ekki nægilega skýrt eftirfylgnihlutverk löggjafans varðandi ráðleggingar fjármálaráðs þegar það er svona afdráttarlaust í afstöðu sinni um að grunngildunum sé ekki fylgt.