146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[16:55]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Jú, ég átti von á breytingartillögum, satt að segja. Umsagnirnar voru það skýrar, ekki síst frá fjármálaráði sem er ætlað að meta stefnuna, vera aðili sem horfir óháð yfir sviðið og er ekki með pólitískar áherslur og segir bara: Ef þetta verður svona eða hinsegin er líklegt að þetta og hitt muni gerast, og gefur ráð. Sem þeir gera mjög vandlega í sinni umsögn þótt þeir hafi aðeins haft tvær vikur til að undirbúa hana. Ég held að það þurfi að skoða alla umgjörð í kringum fjármálaráðið, þurfi að styrkja það og gefa því betra svigrúm til að starfa.

En þegar fjármálaráð er í umsögn sinni að meta það sem þeir eiga að meta, hvort grunngildin séu undirliggjandi og fjármálareglurnar séu þarna, þá er síðasta setningin, eins og varðandi skuldareglur þegar fjármálaráðið hefur farið í umsögn sinni yfir þær, þá enda þeir á þessari setningu, með leyfi forseta:

„Í þessari staðfestingu felst ekki mat á því hversu líklegt sé að þessi stefnumið náist.“

Þeir eru búnir að gefa í skyn og segja frá í umsögn sinni, t.d. um skuldamálin, að það sé mjög erfitt að meta þau. Mjög erfitt að sjá fyrir um langtímaskuldbindingar eins og þetta er sett upp í stefnunni og lög um opinber fjármál gera ráð fyrir að lífeyrisskuldbindingar séu fyrir utan skuldareglurnar.