146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[17:00]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ef við skoðum bara tímasetningarnar og sjáum hvenær það er sem ríkisstjórnin hefur sín störf, sem er í janúar, held ég að það hafi verið algerlega óumflýjanlegt að setja fram fjármálastefnu núna. Það stendur í lögunum, ef ég man rétt, að ný ríkisstjórn eigi að setja fjármálastefnu fram svo fljótt sem auðið er og í síðasta lagi með fjárlögum. Það getur alveg gengið upp ef kosning er í maí eða júní. Ég hefði ekki viljað sjálf sitja í ríkisstjórn og fara eftir fjármálastefnu fyrri ríkisstjórnar. Mér fannst eðlilegt að fjármálastefnan kæmi.

En varðandi fjármálaráðið þá fór síðasta fjárlaganefnd til Svíþjóðar einmitt til að kynna sér hvernig fjármálaráðið starfar þar. Við spurðum þá: Eru einhver skilaboð eða er eitthvað sérstakt sem þið mynduð vilja gefa okkur ráð um? Þeir voru búnir að skoða það sem við vorum með og við búin að fara yfir vinnu þeirra. Þá sagði formaður sænska fjármálaráðsins: Það væri kannski eitt sem við vildum hafa öðruvísi, við vildum frekar heyra undir þingið. En þeir heyra undir ráðherra. Það sama er hjá okkur. Við reyndum að koma þessum breytingum á, að fjármálaráð heyrði undir þingið. Ef við værum með þjóðhagsstofnun — og fyrir liggur tillaga og frumvarp um að stofna hana — gæti sú stofnun starfað fyrir þingið og fjármálaráðherra og heyrði undir þingið. Það held ég að væri óskastaða sem við ættum að reyna að stefna að.