146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[17:02]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Oddnýju Harðardóttur fyrir framlag hennar hér í umræðunni. Ég er sammála hv. þingmanni um að það ríkir óvissa um grundvallaratriði þessarar fjármálastefnu. En það eru atriði í greinargerð hennar sem mér þykja ansi áhugaverð og myndi gjarnan vilja fá nánari upplýsingar um hjá hv. þingmanni þar sem segir að skattastyrkir til ferðaþjónustunnar í formi lægri virðisaukaskatts séu metnir á rúmlega 20 milljarða króna. Með leyfi forseta, segir hér enn fremur orðrétt:

„Það skýtur skökku við að ein stærsta atvinnugreinin njóti slíkra skattastyrkja á sama tíma og vöxtur hennar kallar á aukin ríkisútgjöld og kvartað er hástöfum undan fjárskorti til að byggja upp nauðsynlega innviði til að bera vöxt greinarinnar.“

Ég myndi gjarnan vilja fá að heyra það frá hv. þingmanni hvaða hugmyndir hún hefur um hóflega tekjuleið fyrir ríkissjóð þegar kemur að ferðaþjónustu. Eru það hugmyndir um þá hóflegan virðisaukaskatt eða endurheimt virðisaukaskatts á ákveðnar atvinnugreinar? Eða eru það einhverjar aðrar leiðir? Ég myndi gjarnan vilja fá að heyra þær hugmyndir reifaðar af hálfu hv. þingmanns.