146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[17:07]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að það sé augljóst að ríkissjóður þarf að skila meiri afgangi en stefnan gerir ráð fyrir. Mér dettur ekki í hug að rengja fjármálaráð þegar það kemst að þeirri niðurstöðu. Við ættum þá auðvitað að horfa til auðlinda okkar. Við eigum að horfa til auðlindarentu af orkufyrirtækjum, aukinna tekna af ferðaþjónustunni, eins og við fórum yfir áðan í fyrra andsvari, og útboða á aflaheimildum eða hærri veiðigjalda. Það finnst mér blasa við.

Þetta mætti alveg renna í stöðugleikasjóð ef fólk vill stofna sjóð við hliðina á skuldugum ríkissjóði. Allt í lagi. Mér finnst það auðvitað alveg koma til greina. En þá verður að vera svigrúm innan fjármálastefnunnar til að nota þá þennan sveiflujafnandi sjóð. Ef þessi stefna nær fram að ganga og það verður niðursveifla í hagkerfinu þá gætum við ekki nýtt sjóðinn til að auka útgjöld á meðan á niðursveiflunni stæði út af útgjaldareglu, sem ekki þarf að setja samkvæmt lögum en sem stjórnvöld ákveða sjálf að setja sér. Sett er útgjaldaregla til að passa upp á að ef við lendum í vanda muni það bitna á þeim sem þurfa á velferðarþjónustu að halda. Það er það sem mér finnst svo fullkomlega óásættanlegt við þessa stefnu. Þó að margt sé slæmt þá hrópar á mann þetta viðhorf hægri stjórnarinnar sem setur nú stefnu fyrir næstu fimm árin.