146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[18:02]
Horfa

Frsm. 4. minni hluta fjárln. (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að hrósa hæstv. ráðherra Benedikt Jóhannessyni fyrir að sitja hér og hlusta á alla umræðuna og taka þátt í henni með því að veita andsvar. Það er til fyrirmyndar. Við erum sammála um að við þurfum að vanda okkur varðandi verklag við framkvæmd á þessum nýju lögum. Við erum í raun öll á byrjunarreit. Sú sem hér stendur hefur átt sæti í fjárlaganefnd í um þrjá mánuði, svipað lengi og hæstv. ráðherra hefur setið í ráðuneytinu þannig að við erum öll að máta okkur við þetta og reyna að finna út hvernig er best að vinna þetta. Eins og fram hefur komið er aðalatriðið að við séum öll að vinna innan sama ramma. Það hefur orðið misbrestur á því, þá bendi ég aftur á sveitarfélögin, að innleiðingarferlið hefur ekki gengið nógu vel. Við höfum tíma. Við höldum náttúrlega bara áfram að reyna að ná utan um verkefnið sem er mjög mikilvægt.

Við erum einnig sammála um það, ég og hæstv. ráðherra, að vanda þurfi allt ferlið í kringum bankana sem stendur til að fari í sölu, eða hvað? Ég vil nýta tækifærið og spyrja hæstv. ráðherra því það er ákveðið misræmi í máli hæstv. ráðherra annars vegar og hv. þm. Haraldar Benediktssonar varðandi sölu bankanna. Ég vil spyrja beint: Stendur til að hefja söluferli á bönkunum innan skamms eða liggur ekkert á? Hvernig er tímaramminn varðandi þetta mjög svo mikilvæga verkefni sem hefur mögulega úrslitaþýðingu um fjármál ríkisins?