146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[18:13]
Horfa

Frsm. 4. minni hluta fjárln. (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef ekki miklu við þetta að bæta en ítreka það sem hv. þingmaður sagði rétt í þessu og kom einnig fram í ræðu minni. Hefðbundnir arðsemisútreikningar duga ekki endilega til. Það þarf einnig að horfa til samfélagslegra sjónarmiða og fleiri þátta sem skipta mjög miklu máli þegar við ákvörðum í hvaða fjárfestingar við förum og í hvers konar framkvæmdir. Þetta er mjög mikilvægt. Ég heyri að það er samhljómur þarna, sem betur fer, milli álits meiri hlutans og okkar í minni hlutanum, öllum þessum minni hlutum. Ég vona að það skili sér til hæstv. fjármálaráðherra. Ég vona að hann taki mið af því sem bent er á í nefndaráliti okkar allra; að tekið sé tillit til þessara sjónarmiða, þjóðhagslegra sjónarmiða, ekki eingöngu hefðbundinna arðsemisútreikninga, og að menn festist ekki algerlega í excel-skjalinu og haldi sig bara við það. Fleiri hlutir skipta máli.