146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[18:32]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og vil fara aðeins í bankasöluna frekar. Hér hefur verið beint til mín ýmsum spurningum varðandi hana. Nú er það svo að í fjármálastefnunni og fjármálaáætluninni sem kemur svo í kjölfarið er reiknað með því að um 35 milljarðar komi á ári frá þessum bönkum eða eignum ríkisins, það eru nú fyrst og fremst bankarnir sem þar um ræðir. Eins og bent var á eru arðgreiðslur frá bönkunum, sem ríkið á nánast að fullu, um 35 milljarðar í ár, en ég vil spyrja þingmanninn hvort hann telji að það sé betri ráðstöfun á fjármunum að selja bankana hraðar og borga niður skuldir eða að bíða og greiða skuldirnar niður hægar eins og gert er ráð fyrir í fjármálastefnunni og síðan í fjármálaáætluninni.