146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[18:39]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér skildist á hv. þm. Haraldi Benediktssyni, formanni hv. fjárlaganefndar, og af meirihlutaáliti nefndarinnar, að niðurgreiðslan á skuldum ríkisins yrði í raun framkvæmd með sölu bankanna. Fyrir viku sagði hæstv. fjármálaráðherra hins vegar að engin sérstök áform væru uppi um sölu eignarhluts ríkisins í Íslandsbanka og Landsbanka. Ég verð að fá viðbrögð frá hv. þingmanni um þetta misræmi. Eru áform um sölu á eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka og Landsbankanum, eins og skilja má af meirihlutaáliti hv. fjárlaganefndar, eða eru engin sérstök áform um sölu eignarhluta ríkisins í Íslandsbanka og Landsbanka? (Forseti hringir.) Þetta er mjög mikilvæg spurning. Það verður að fara að koma svar við þessu, þ.e. frá hæstv. fjármálaráðherra sem og hv. þingflokksformanni.