146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[18:43]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Oddnýju Harðardóttur fyrir andsvarið. Ég lít ekki svo á og skil stefnuna ekki þannig að þarna séu gagnstæð sjónarmið. Það er náttúrlega gengið út frá hagvexti í þessari spá. Spáin rúmar þessa innviðafjárfestingu. Ég vildi óska að hún gæti verið meiri, ég held að allir hljóti að vera sammála um það. En eins og kemur fram, og ég sagði í lok ræðu minnar, lítum við á þetta sem ágætismálamiðlun miðað við aðstæður. Við erum að fara í þessa innviðauppbyggingu að einhverju leyti án þess þó að stíga það skref að valda ofhitnun. Þetta er miðað við aðstæður. Svarið er því: Nei, ég tel ekki að þetta komi í veg fyrir það.