146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[18:49]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir það að við þurfum að staldra við varðandi bankasöluna. AGS kemur inn á það, það er frétt á vef Kjarnans í dag þar sem hvatt er til þess að flýta sér ekki heldur velja kaupendur af kostgæfni, eins og það er orðað.

Mig langar í seinna andsvarinu, sem er stutt, að spyrja hv. þingmann varðandi það sem kemur fram á bls. 13 í fjármálaráðsumsögninni þar sem talað er um kynslóðareikninga sem þyrfti að gera. Þeir voru síðast gerðir fyrir Ísland í kringum síðustu aldamót. Í ljósi grunngildis um sjálfbærni er vert að skoða hvort ekki sé tímabært að gera það aftur, er hér sagt. Í ljósi þess að við erum að tala um að flytja inn ákveðin verkefni í framtíðina langar mig að spyrja: Telur hv. þingmaður ekki að nefndin ætti að beita sér fyrir því að slíkt yrði gert?