146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[19:10]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir ræðuna. Við erum sammála um ansi margt, heyrist mér. Ég tek undir þetta með stefnumótunina og stefnumörkunina og það að við þurfum að reyna að standa við að hafa þessi langtímamarkmið. Mér finnst við ekki alveg vera að byrja rétt. Mér finnst við vera að gefa strax eftir í þessari stefnu, þ.e. með því að fara ekki eftir því sem verkferlið býður upp á. Mér fannst líka ánægjulegt að heyra, er ánægð með að sjá það hjá meiri hlutanum, þetta með að greina áhrif mismunandi fjárfestinga. Við tölum gjarnan um mikla þenslu í hagkerfinu í heild o.s.frv. og þekkjum svo umræðuna, en það er kvartað sáran mjög víða þar sem ekkert hefur gerst í mjög langan tíma.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann út í fjármálaráðið, um atriði sem ég hef aðeins verið að velta hér upp í dag. Hvernig sér hún það fyrir sér að við sem þingnefnd tökum ábendingum fjármálaráðs, þegar við horfum fram á veginn með það sem við höfum í höndunum núna? Um er að ræða töluvert mikla gagnrýni, t.d. er talað um sjálfvirku sveiflujafnarana. Um þá segir hér, með leyfi forseta:

„Í fjármálastefnunni er sjálfvirkum sveiflujöfnurum ætlað það almenna verkefni að draga úr eftirspurn sem að miklu leyti er knúin áfram af þeim hluta hennar sem á rætur að rekja til ferðaþjónustunnar. Hér er verið að nota þjóðhagsleg tæki sveiflujöfnunar til að takast á við sértækt rekstrarhagfræðilegt viðfangsefni. Almennt eru sjálfvirkir sveiflujafnarar ekki notaðir til að bregðast við vandamálum er lúta að einstökum atvinnugreinum.“

Ég spyr annars vegar um hlutverk fjármálaráðs, hvernig hv. þingmaður sér það fyrir sér í vinnu í nefndinni. Og ég spyr líka: Hvernig eigum við að taka á svona ábendingum? Þær skipta gríðarlega miklu máli að mínu mati.