146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[19:12]
Horfa

Theodóra S. Þorsteinsdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér fannst mjög áhugavert að hlusta á fjármálaráð í nefndarstörfunum. Mér fannst koma fram mjög mikilvægar athugasemdir. Það komu líka fram góðar athugasemdir. Þau voru jákvæð með ýmislegt sem við erum að breyta í verklagi, sem ég tók heils hugar undir. Í sambandi við þessa sveiflujöfnun þá nefndi hv. þingmaður ferðaþjónustuna, en mér finnst líka mikilvægt að við horfum á hinn endann eins og ég nefndi áðan. Þegar ábendingar koma um heila starfsstétt eða atvinnuveg þurfum við að taka þeim ábendingum. Ég er búin að benda á að mér finnst mjög mikilvægt að við náum tökum á ferðaþjónustunni, þannig lít ég alla vega á það sem góðar athugasemdir og það styrkir trú mína á það að við þurfum að ná tökum á ferðaþjónustunni og þessum ofvexti. Það er enginn stöðugleiki í ferðaþjónustu, það er óstöðugleiki, það er mjög óæskilegt að það sé mikill vöxtur, mér finnst það aldrei gott. Frá þeim enda séð finnst mér gott að fá athugasemdir frá svona góðu ráði eins og er þarna; það er mjög hæfur hópur af fólki sem gaf okkur þessi ráð. Mér finnst þetta traustvekjandi og ég hlusta á þetta. En hins vegar er líka hægt að fara í það að bregðast við með því, eins og við vorum búin að nefna, að móta stefnu til framtíðar í ferðaþjónustu.