146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[19:18]
Horfa

Theodóra S. Þorsteinsdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig grunar að hv. þingmaður reki mig á gat þessari umræðu, en hins vegar fór auðvitað fram töluverð umræða í fjárlaganefnd hvað varðar hlutverk og aðkomu lífeyrissjóðanna, ávöxtunarkröfu þeirra og annað, þ.e. hvaða áhrif það hefur á raunverulega allt samfélag okkar. Ég get raunverulega ekki svarað nákvæmlega þessum vangaveltum hv. þingmanns og vil ekki koma með neitt innlegg hingað inn og óska eftir því að við getum rætt þetta frekar í fjárlaganefnd.

Hins vegar, ef ég hef smátíma í svari, þá finnst mér aðkoma lífeyrissjóðanna inn í hagkerfið okkar bara yfirleitt, hvort sem það er inn í lánafyrirkomulagið hjá okkur í húsnæðislánin, hvernig þeir koma inn í uppbyggingu á húsnæði, koma inn í leigufélögin og eru orðnir mjög afgerandi og taka sér pláss í okkar samfélagi — mér hugnast ekki alveg sú þróun og finnst þetta vera einhvern veginn þannig að við þurfum að ná líka böndum um akkúrat þetta mikla fjármagn sem er inni í lífeyrissjóðunum. Þetta verður mitt innlegg í þessa umræðu hér.