146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[20:16]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hæstv. ráðherra spyr um afganginn og hver hann eigi að vera. Ég er talsmaður ábyrgrar fjármálastjórnunar. Ég er ekki talsmaður þess að fara og eyða þeim peningum sem eru ekki til. En ég tel líka mikilvægt að ríkissjóður standi undir þeim verkefnum sem við viljum að hann sinni. Þegar við sjáum það viðurkennt, ekki bara af stjórnarandstöðu heldur þingmönnum meiri hlutans, að þar sé gat á milli, þ.e. það þurfi að ráðast í þessa uppbyggingu, hlýt ég að spyrja: Gott og vel, þarf þá ekki að gera ráðstafanir til þess að mæta því? Þarf þá ekki að afla aukinna tekna? Bent er á það í umsögn fjármálaráðsins að það að henda út milliþrepinu til að ná fram skattalækkunum á síðasta kjörtímabili hafi slakað á því aðhaldi sem nauðsynlegt hefði verið í ríkisrekstrinum. Þarna var tekin pólitísk ákvörðun um að fara fremur í skattalækkanir en að halda aðhaldinu og tekjustofnar ríkisins veiktir. Þetta er stóra (Forseti hringir.) forgangsröðunin. Mér finnst mikilvægara að við sinnum þeim verkefnum sem okkur er ætlað að sinna sem samfélagi (Forseti hringir.) en að ráðast í skattalækkanir, í raun og veru af trúarsetningu eins og ég sagði áðan í ræðu minni.