146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[20:18]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langaði að tala hérna um nokkur atriði sem hv. þingmaður drap á. Í fyrsta lagi þessa sjálfvirku sveiflujöfnun sem oft hefur verið talað um og þær umsagnir sem við fengum um að eðlilegt væri í þeirri hagsveiflu og uppleið sem við erum í núna að fara í skattahækkanir eða einhvers konar tekjuöflun.

Fjármálaráð benti einnig á að það fengi mjög skamman tíma til umfjöllunar. Samsetning ráðsins var undarleg þar sem varamenn voru í raun aðalmenn. Það þarf að laga það atriði varðandi fjármálaráðið.

Síðan bað fjárlaganefnd efnahags- og viðskiptanefnd um umsögn sem ég vil gera athugasemd við að er ekki prentuð með áliti meiri hlutans, sem á að vera samkvæmt þingsköpum, þótt hún hafi ekki verið mikil. Hún á að vera prentuð með áliti meiri hlutans.

Svo að lokum um vinnulagið. Þetta er eitthvað sem ég hef reynt að tala fyrir innan fjárlaganefndar. Já, það er ákveðin miðstýring í lögum um opinber fjármál en ég held að miðstýringin liggi meira í þeim tíma, þeim litla tíma, sem Alþingi hefur að fjalla um málið. Þegar maður er bara að þröngva málinu í gegn gefst ekki tími til góðrar yfirsetu yfir það hvað hefur farið úrskeiðis.

Ég lít dálítið á vinnulagið þannig að við fáum t.d. fjármálaáætlunina frá ráðuneytunum og þar eigum við að geta séð verkefnaröðina, séð forgangsröðunina. Þá er spurningin hvaða áhrif þingið geti haft á þessa forgangsröðun. Það er aðalspurningin miðað við hvernig þessu var háttað áður og er háttað núna í lögum um opinber fjármál. Þar myndi helsta pólitíkin gerast. Ég held að við þurfum að berjast fyrir því á Alþingi að verkefnalistinn sé mjög skýr þannig að við sjáum hvað bætist við og fellur út þegar við bætum í málefnasviðin eða (Forseti hringir.) minnkum við. Þá er spurningin aftur um hvernig við getum haft áhrif á það að raða einu umfram annað.