146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[20:20]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Eins og ég hef skilið þetta vinnulag kemur Alþingi að forgangsröðun milli málaflokka þegar kemur að fjármálaáætluninni sjálfri, ekki stefnunni. Stefnan er hins vegar stóra myndin, þ.e. að leggja mat annars vegar á þjóðhagsforsendur. Hv. þingmaður nefndi að efnahagsnefnd hefði verið beðin um álit en eins og ég nefndi var það seint og með því fororði að það yrði allt að gerast innan 24 tíma eða eitthvað álíka, sem gengur auðvitað ekki þegar við erum að fara yfir stóru myndina.

Ég hef kenningu um þetta. Það er að menn hafi bara hreinlega ekki áttað sig á því af hverju efnahagsnefnd ætti að fá málið til umsagnar, þeir hafi kannski ekki skilið tilganginn með því. En tilgangurinn hlýtur að vera sá að sú nefnd þingsins sem fer með þessi málefni fari yfir þjóðhagsforsendurnar, yfir álit fjármálaráðs sem leggur einmitt mat á forsendurnar. Til þess þarf tíma. Ég er algerlega sammála hv. þingmanni.

Ég er líka sammála því sem kom fram hjá hæstv. ráðherra, auðvitað er þetta lagt fram á óvenjulegum tíma út af óvenjulegum kringumstæðum. Það breytir því ekki að við erum að samþykkja eða afgreiða, ef þetta mál verður afgreitt, stefnu sem bindur hendur meiri hlutans ef hann ætlar að taka mark á þessu til fimm ára. Það er óviðunandi að mínu viti að við séum ekki búin að gefa okkur meiri tíma á réttum vettvangi þingsins til að fara yfir efnahagsforsendurnar. Það er svar mitt við þessu.

Það skiptir svo líka máli að innviðirnir, þá er ég ekki bara að tala um tímann heldur innviðina sjálfa, séu í lagi. Ég hef nefnt hér þjóðhagsstofnun. Ég hef áður nefnt og ætla að gera það aftur þá staðreynd að þegar þessi lög voru samþykkt fengu ráðuneytin öll aukafjárveitingu til að standa að innleiðingu nýrra laga um opinber fjármál. Mér finnst það fínt. Hvar er aukafjárveitingin sem Alþingi átti að fá, frú forseti, þannig að Alþingi gæti tekið sitt hlutverk alvarlega við að innleiða þessi lög? Hún kom nefnilega aldrei. Ráðuneytin fengu þessa fjármuni, (Forseti hringir.) sem er fínt, en við, sem förum með fjárstjórnarvaldið, okkur er boðið upp á námskeið í lögum um opinber fjármál þegar við erum búin að samþykkja lögin og erum að fara að vinna fjármálastefnu sem var búið að leggja fram, minnir mig, á þeim tíma.