146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[20:26]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar til að byrja á að þakka hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur fyrir góða yfirferð á þessu plaggi sem kallast víst fjármálastefna sem byggir að miklu leyti til á sænskri fyrirmynd. Nú hef ég verið að glugga í hvernig Svíar stunda sína fjármálastefnu, „finanspolitik“, með leyfi forseta, eins og það heitir upp á sænsku. Þar er t.d. sambærilegt ráð og fjármálaráðið sem bjó til þá umsögn um stefnuna sem hv. þingmaður vitnaði í áðan. Hjá þeim eru t.d. skýrslur upp á 100–200 bls. þar sem er farið mjög ítarlega í hlutina og í þá stefnu sem Svíar ætla að fara í þegar kemur að fjármálum þeirra.

Mér þykir því svolítið einkennilegt, og langar að athuga hvað hv. þingmanni finnst, þegar ég les nefndarálit meiri hluta fjárlaganefndar — við erum að tala um fjármálastefnu til fimm ára — þar sem hann segir, með leyfi forseta: „Meiri hlutinn leggur til að tillagan verði samþykkt óbreytt.“

Er eitthvert plagg það fullkomið að ekki sé hægt að taka tillit til þeirra umsagna sem þegar hafa verið sendar inn? Á bls. 25 í umsögn fjármálaráðsins er t.d. bent á minni háttar villu. Af hverju var ekki hægt að breyta því í fjármálastefnunni? Hvers lags vinnubrögð stundum við eiginlega hér á Alþingi? Mig langar að vita hvað hv. þingmanni finnst eiginlega um þetta. Erum við í raun og veru að búa til einhverjar skýjaborgir sem við getum síðan ekki uppfyllt?