146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[20:32]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Í umsögn fjármálaráðs sem ég hef vitnað töluvert í hér í ræðu minni og andsvörum eru gerðar athugasemdir við hvernig niðurgreiðsla skulda er fyrirhuguð, það skorti upplýsingar, gerðar eru athugasemdir við lífeyrissjóðsskuldbindingar og hvernig þær eru settar fram, það er gerð athugasemd við að útgjaldaþakið geti reynst spennitreyja ef hagspáin verður öðruvísi en ætlað er, að það leiki vafi á hvort stefnan uppfylli þau grunngildi sem lögð eru fram í lögum um opinber fjármál. Í nefndaráliti meiri hlutans kemur fram að það sé óvissa en samt sé mjög mikilvægt að klára þetta, til þess einmitt að binda hendur þingsins fyrir fjármálaáætlun.

Hv. þingmaður spyr eiginlega: Hvers lags er þetta? Ég vil bara segja við hv. þingmann að lögin um opinber fjármál eru ekki náttúrulögmál. Meiri hluti Alþingis getur ákveðið að breyta þeim lögum. Meiri hluti Alþingis getur ákveðið að breyta því sem þar er sett fram í formi hagstjórnarreglna. Meiri hluti Alþingis getur hvenær sem er tekið ákvörðun. Því það er nefnilega þannig, óháð öllum lagasmíðum, (Forseti hringir.) fjármálaráðuneytisins og stefnusmíðum, að fjárstjórnarvaldið er enn hjá Alþingi.