146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[20:54]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þingmanninum ræðuna, sem mér fannst ljómandi góð. Hún tók einmitt á þeim þáttum sem við höfum mikið verið að ræða hér, þ.e. undirliggjandi fjármálaáætlun sem fram undan er og á hverju hún mun taka eða ekki taka. Ég tek undir það, af því að ég var í kosningabaráttu með þeim félögum líka, að okkur finnst það kannski ekki ganga alveg eftir, það sem þar kom fram. Hv. þingmaður kom inn á útgjaldaþakið og það eru varúðarsjónarmið hér og allt það. Mig langar að spyrja hann út í það að vinna saman stefnuna og áætlunina. Í ljósi þess hvernig staðan er, að við náum ekki utan um það hvað þetta felur í raun í sér, að áætlunin nái raunverulega utan um innviðauppbyggingu sem ríkisstjórnin er að boða, spyr ég hvort við ættum að fresta því að afgreiða stefnuna og afgreiða hana og áætlunina saman, eins og við gerðum síðast — það er auðvitað ekki prótókollinn, en bara svona til þess að reyna að ná utan um þetta.