146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[20:57]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er einmitt það sem mér finnst skelfilegast í þessu. Í þeirri spennu sem nú er hefði á margan hátt verið skynsamlegt að fara í tekjuöflun á þá hópa sem ráða mjög vel við það. Ég kannast hins vegar ágætlega við svona vinnubrögð vegna þess að fyrri hluta ævi minnar lét ég aðeins stjórnast af því að gera ráð fyrir að allt myndi ganga meira í haginn og batna og batna. En svo fékk maður auðvitað alltaf skellinn með nokkurra vikna millibili. Það er það sem ég óttast að gerist núna að þegar hann kemur þá séu menn bundnir af þessari fjármálastefnu og neyðist til að skera niður. Og hvað gerir það í samfélagi þar sem innviðir eru að grotna niður?