146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[21:00]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ástæða þess að ég legg þetta til er að mér finnst satt að segja í umræðunni eins og hv. þingmenn tali með þeim hætti að hér eigi að ljúka við gerð stefnu til fimm ára, hún er svona og svona. Svo segja þeir í aðra röndina þetta og í hina röndina segja þeir: Svo þurfum við að fara í mikla uppbyggingu, við þurfum að stórauka framlög til heilbrigðismála og gera alls konar hér og þar. Átta hv. þingmenn sig ekki á því að sú áætlun sem lögð verður fram á föstudag er algjörlega bundin af þessu? Átta hv. þingmenn sig á því hve mikil óvissa felst í þessu plaggi? Þess vegna segi ég, og hv. þingmaður tekur vel í það, að mér finnst að þetta sé eitthvað sem við þyrftum að ræða og ekki endilega vegna þess að það verði fordæmisgefandi heldur vegna þess að við erum að innleiða nýtt vinnulag. Hér hafa allir viðurkennt að það hefur gengið á ýmsu við innleiðingu þess vinnulags og þetta sé kannski ekki eins og best verður á kosið. Hluti af þessum nýju vinnubrögðum er þá að draga (Forseti hringir.) andann og staldra aðeins við þannig að fólk átti sig á því hvað er verið að samþykkja hér.