146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[21:02]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður nefndi niðurskurðarhnífinn, en kannski væri áhugavert að bæta við þá setningu: eða stórfelld sala eigna. Það er hin leiðin til þess að afla tekna, það er sem sagt ekki bara gripið í niðurskurðarhnífinn heldur eru eignir seldar til að redda ríkissjóði þegar kreppir kannski að.

Alla vega, ég hefði áhuga á að vita hvernig fjármálastefnan myndi hjálpa hv. þingmanni þegar kemur núna að afgreiðslu fjármálaáætlunar, þar sem hann er núna nefndarmaður í atvinnuveganefnd og málefnasvið fjármálaáætlunar á að koma inn í atvinnuveganefnd. Ég hefði áhuga á að heyra skoðun nefndarmanna utan fjárlaganefndar og efnahags- og viðskiptanefndar hvernig þessi fjármálastefna, svona sem utanaðkomandi aðili, muni koma til með að hjálpa hv. þingmanni í umfjöllun á þeirri áætlun sem þeir eru að fara að taka til umfjöllunar núna á næstunni?