146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[21:04]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það bjargar sennilega nefndarmanni í atvinnuveganefnd að hún starfar núna lítið, það hafa nánast ekki komið nein mál frá ríkisstjórninni, og þau þingmál sem hafa komið hafa varla komist til nefndarinnar. Þannig að það verður svo sem létt.

En grunnurinn er auðvitað sá að það er hætta á því að þessi fjármálastefna sem við erum að samþykkja núna bindi okkur í báða skó og við höfum kannski enga raunverulega möguleika. Við getum sagt ýmislegt og við getum gefið minni- og meirihlutaálit. En getum við raunverulega lagt okkar af mörkum þannig að ráðist verði í þær framkvæmdir og þá uppbyggingu sem þarf að gera og allir lofuðu?