146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[21:06]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það getur vel verið. Ég held að hv. þingmaður þekki það bara hreinlega betur en ég í rauninni hversu bundin við erum þegar hún hefur verið samþykkt og lögð fram. Samgönguáætlun var samþykkt á síðasta þingi. Hún hefur ekki komið til nefndarinnar. Ég veit ekki hvort hæstv. samgönguráðherra ætlar að senda hana aftur inn í þing. (Gripið fram í.) Hvernig kemur hún þá? Hvernig birtist hún þá? Birtist hún eins og vilji þingsins og þjóðarinnar var fyrir kosningar? Eða birtist hún sem afleiðing af þeirri stefnu sem við erum að samþykkja núna og fjármálaáætlunina sem við samþykkjum á föstudaginn? Ég óttast það, ég óttast núna að við förum að tálga allar greinarnar sem ætla að leyfa sér að teygja sig út í himininn, bolurinn verði bara eftir.