146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[21:21]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hvenær á að selja banka og hvenær á ekki að selja banka? Það er mjög stór spurning. Fyrir það fyrsta er rétti tímapunkturinn til að selja banka þegar við erum búin að búa til ákveðið ferli og mynda ákveðið traust. Þegar Bankasýsla ríkisins kom í fyrra með sína umsögn um að kannski væri kominn tími til að selja hlut í Landsbankanum, ef mig minnir rétt, fann ég fyrir miklu vantrausti frá almenningi. Ég held að það þurfi að byggja fyrst og fremst upp traust gagnvart ríkisstjórninni, gagnvart pólitíkusum, stjórnmálamönnum, á að við getum gert þetta almennilega. Ég myndi vilja byrja hægt, selja eins lítinn hlut í bönkunum og mögulegt er og fá gott markaðsverð fyrir. Ég myndi selja þetta yfir langt tímabil, gera svipað því sem hefur verið gert í Noregi og Danmörku þar sem bankarnir (Forseti hringir.) voru einkavæddir yfir næstum hálfrar aldar tímabil.