146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[21:33]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum svarið. Það er nefnilega alveg rétt, skattarnir eru til að fjármagna samneysluna. Þessi ríkisstjórn virðist ekki ætla að fara í neina slíka, eða jú, ráðherra nefndi í upphafi ræðu sinnar eitthvað um græna skatta en það var mjög óljóst allt saman.

Mig langar líka að spyrja þingmanninn í ljósi þeirrar umræðu sem hér hefur verið í dag hvort hún sé mér sammála um að við ættum ekki að afgreiða þessa stefnu fyrr en við sjáum áætlunina, þ.e. getum áttað okkur á því hvort við erum að loka okkur inni með allt of þröng markmið, með útgjaldaþaki og öðrum þeim reglum sem 7. gr. innifelur eða hvort hún telur að það sé í lagi að klára að afgreiða þessa stefnu.

Ég ætla líka að segja um það þegar hæstv. ráðherra spurði hana áðan spurningar sem varðaði tölulegar upplýsingar, að þetta er akkúrat eitt af því þar sem við getum sagt að við höfum ekki þá aðstoð sem ráðherrann hefur. Þingið fékk ekki slíka aðstoð.