146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[21:34]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, eins og kemur fram í áliti fjármálaráðs þá er samhengi milli fjármálastefnu, fjármálaáætlunar og fjárlaga. Til þess að við getum áttað okkur á hvert ríkisstjórnin stefnir, við höfum þessar níu blaðsíður þar sem er um það bil ein tafla af texta sem á að vera öll fjármálaáætlunin samkvæmt orðum hæstv. fjármálaráðherra, þá er mjög mikilvægt fyrir okkur sem þing að sjá fjármálaáætlunina áður en þetta er afgreitt. Ég tel það mjög ábyrgt.

Það er alveg rétt sem hv. þingmaður benti á. Við höfum ekki þessa aðstoð. Þingmenn, og ég hugsa líka fjármálaráð þegar út í það er farið, hefur ekki þá aðstoð, það bakland, sem þarf til að geta unnið þetta vel og vandlega. Mér finnst þetta vera ítrekað vandamál í þingstörfum. Við setjum okkur háleit markmið en síðan höfum við einfaldlega ekki mannafla eða nógu marga tíma í sólarhringnum til að fylgja þeim eftir.