146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[21:39]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem ég var að gagnrýna áðan voru í raun orð hæstv. fjármálaráðherra þar sem hann sagði að það væru engin sérstök áform um sölu á eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka og Landsbanka. Þar sem hæstv. ráðherra vill túlka ákveðna hluti eins og t.d. nálæga eða næstum eða sérstakt þá notaði ég, kannski til að taka af allan vafa, orðið ósérstök áform, tók þannig til orða.

Þegar hv. þingmaður spyr mig um afstöðu mína gagnvart því hvort eigi að selja banka tel ég ekkert vera neitt kappsmál að ríkið eigi banka. Ég tel það ekki endilega forgangsatriði. En hins vegar hvernig staðið er að því að selja bankana, þar stendur hnífurinn í kúnni. Það skiptir máli að gera þetta vel. Annars lendurm við aftur í því sem gerðist síðast. Það er bara ekki kominn tími, það er ekki traust í samfélaginu. Það er það sem ég skynja. Við þurfum að gera þetta hægt, byggja upp traust áður en við seljum banka. (Forseti hringir.) Hvort ríkið eigi banka eða ekki finnst mér ekki vera forgangsatriði akkúrat núna. Ef við ætlum að fara í að selja banka þurfum við að gera það almennilega. Það er mín afstaða.