146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[21:53]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar til að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Mig langar að forvitnast um álit fjármálaráðs þegar kemur að stefnumörkun í nýrri lagaumgjörð. Við erum náttúrlega að taka þetta almennilega fyrir hér á þinginu í fyrsta skipti. Eins og vitað er á að vera ákveðið samhengi milli fjármálastefnu, fjármálaáætlunar og fjárlaga.

Við gerð fjármálaáætlunar, sem eru þær níu blaðsíður sem við ræðum núna, skal fjármálastefnan vera til grundvallar. Hvaða áhrif hefur það á okkar vinnu á þessu þingi að hafa ekki nógu skýra mynd af því hver fjármálaáætlunin verður síðan í kjölfarið? Erum við kannski að fara að læsa okkur inni í fjármálastefnu til fimm ára? Þetta plagg er til fimm ára. Það voru mjög miklar umræður um þetta í þinginu á síðasta kjörtímabili, veit ég, um hvort þetta væri í raun hægt og hvort þetta væri eðlilegt þegar kæmi að skiptingu valdsins og hver hefði hvaða vald. Er það siðferðislega rétt að samþykkja fjármálastefnu óbreytta úr ráðuneyti án þess að vita hver fjármálaáætlun, sem á að fylgja á eftir, er? Eru það góð vinnubrögð að mati hv. þingmanns? Í meðhöndlun þingsins og fjármálaráðs hefur ekkert verið tekið tillit til eins né neins. Þetta er allt saman samþykkt óbreytt. Óbreytt — þessi tæpa blaðsíða sem texti sjálfrar þingsályktunarinnar er, svo að ekki sé minnst á greinargerðina.

Erum við að læsa okkur inni? Það er spurningin.