146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[22:26]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum svarið. Ég er sammála því, auðvitað þyrfti Alþingi að vera burðugra og geta staðið betur undir hlutverki sínu. Auðvitað gætum við staðið betur undir hlutverki okkar ef við fengjum fleiri gögn. Til dæmis væri afar áhugavert ef við fengjum nú að sjá hver fjármálaáætlun þessa árs er áður en við samþykkjum fjármálastefnuna.

Ég nefndi svo sem nokkur atriði sem gætu hugsanlega verið á gátlista. Reyndar eru þau öll sömul komin úr lögum um opinber fjármál. Það vantaði að vísu eitt, langtímaskuldbindingar. Í rauninni er í spurningu minni fólgin sú athugasemd að allt þetta vanti í þessa tillögu. Það vantar að vinnan hafi verið unnin í fjármálastefnunni sem kveðið er á um í lögum. Þannig að ég spyr hv. þingmann: Er þetta í lagi?