146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[22:31]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra spurningahlaðið andsvar sitt. Nú vill svo til að ekki einasta deilum við ráðherrann hér herbergi og þar með andrúmslofti heldur erum við jafnframt að deila sömu tímalínu. Það að ráðherrann hafi lagt málið fram á fyrsta degi þingsins segir mér, miðað við það hvernig málið lítur út, að hann hefði kannski betur gefið sér meiri tíma í ráðuneytinu til að vinna það. Tímaskorturinn nær til allrar tímalínunnar, hvort sem það er hjá okkur eða honum. Þá hefði hann kannski getað uppfyllt lög um opinber fjármál og lagt fram allar þær greiningar sem kveðið er á um að þurfi og sem fjármálaráð bendir á að vanti. Hann sagðist lofa að leggja fram aðra svona stefnu eftir fjögur á og þó að ég voni að hann verði ekki aftur fjármálaráðherra eftir þær kosningar þá er batnandi mönnum best að lifa.

Jú, ég hef kynnt mér umsagnir, en spyr mig hvort hæstv. ráðherra hafi gert það líka. Hann segir hér að enginn umsagnaraðili hafi sagt aðhald vera of mikið, þar hefur honum yfirsést umsögn frá Alþýðusambandi Íslands þar sem segir, með leyfi forseta:

„Tekjustofnar ríkisins hafa á undanförnum árum verið veiktir sem dregur úr aðhaldi ríkisfjármálanna og minnkar verulega svigrúm til nauðsynlegra velferðarumbóta.“

Ráðherranum svíður sveltistefnan, skiljanlega, ég ætla ekkert að setja einhverja prósentu eða einhverja tölu á það hversu mikið er eðlilegt að bæta í rekstur. Ég ætla bara að segja að þegar Listaháskólinn er ekki í mygluðu húsnæði, þegar fólk þarf ekki að neita sér um nauðsynlega læknisþjónustu, þegar háskólinn getur haldið úti nauðsynlegri menntun án þess að skera niður ár frá ári, þá erum við á réttum stað.