146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[22:34]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég veit ekki hvað ég á að elta ólar lengi við það að hæstv. ráðherra þyki óþægilegt að boða hægri stefnu, sveltistefnu, og það að skera niður nauðsynlega þjónustu. Mig langar bara að taka undir með ráðherranum þegar hann sagði, sem óbreyttur borgari í framboði hér fyrir kosningar, að verulega þyrfti að bæta í samgöngur. Ætli hann hafi ekki líka talað um ákall til uppbyggingar á Landspítalanum eins og við öll? Ætli hann hafi ekki, eins og allir sem tóku þátt í kosningabaráttu, áttað sig á því að menntakerfið er verulega laskað eins og heilbrigðiskerfið hefur verið allt of lengi? (Fjmrh.: Spurningarnar. Svör.)

Virðulegur forseti. Ég er bara ekki þannig innréttaður að vilja setja þetta í excel-skjal til að svara krossaspurningu fyrir hæstv. ráðherra. (Fjmrh.: Nei, bara hér í salnum.) Ég vil að þetta snúist um þjónustuna. Hún er ekki veitt. Þess vegna er þetta sveltistefna.