146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[23:03]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum ræðuna og myndi vilja beina að honum svipaðri spurningu og ég hef beint að tveimur öðrum þingmönnum, þar sem í þetta skiptið er hv. þingmaður innan nefndar sem hefur með samgöngumál að gera. Væntanlega ruglaðist ég á hinni, það var atvinnuveganefnd, (Gripið fram í.) ég blandaði vegum eitthvað þar inn í.

Samgöngumál verða væntanlega dálítið stór biti af komandi fjármálaáætlun, við vitum það ekki enn þá, höfum ekki séð hana. En finnur hv. þingmaður einhvern stað í fjármálastefnunni sem gæti hjálpað honum að sjá hvort verið sé að framfylgja einhverju fimm ára plani eins og fjármálastefnan ætti að vera?

Annað sem ég vildi leggja inn í umræðuna er: Talað er um tímann sem við höfum til að afgreiða fjármálastefnuna. Undir öllum venjulegum kringumstæðum væri fjármálastefna lögð fram að hausti eftir vorkosningar. Fjármálastefnuna þyrfti síðan ekki að samþykkja fyrr en áður en fjármálaáætlun yrði samþykkt, jafnvel að vori. Við hefðum þann tíma til að fjalla um fjármálastefnuna, fá umsagnir um hana og því um líkt. Miðað við lög um opinber fjármál er gefinn mjög rúmur tími til að fjalla um fjármálastefnuna en við ættum að gefa okkur meiri tíma en okkur er skammtaður, að því er virðist vera. Ég vildi benda aðeins á það. Við höfum reyndar ekki eins mikinn tíma núna vegna októberkosninga.

Svo ætlaði ég að spyrja aðeins um Fourier-greiningu. En ég sleppi því kannski.