146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[23:07]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þótt ekki sé sérstaklega tekið fram í fjármálastefnunni eða í lögum um opinber fjármál um fjármálastefnuna að eitthvað skuli minnst á samgöngur eða menntamál eða heilbrigðismál eru það óhjákvæmilega þeir málaflokkar sem við fjöllum um. Í lögum um opinber fjármál er síðan fjallað um grunngildin sem staðfesta verður að eigi við um fjármálastefnuna. Það verður að sýna fram á að þeim sé framfylgt. Augljóslega, alla vega að því er ég tel, verður að sýna fram á að þau eigi við um þá málaflokka sem við fjöllum almennt séð síðan um í fjármálaáætlun og fjárlögum, og þá þessa helstu pósta, menntakerfi, heilbrigðiskerfi, samgöngukerfi og því um líkt.

Þess vegna finnst mér áhugavert að það sé ekkert í fjármálastefnu sem segir að það verði veruleg uppbygging á næstu árum til þess að vega upp á móti þeirri niðurníðslu sem verið hefur á undanförnum árum. Að lagðir verði umframpeningar í t.d. heilbrigðiskerfið, bara svo að maður sjái þegar fjármálaáætlunin kemur að búið sé að hækka eða lækka á hinum og þessum málefnasviðum og maður sjái hækkunina varðandi heilbrigðismál og segi: Já, þetta var sagt í stefnunni. Að maður sjái hækkunina til samgöngumálanna sjálfra. Já, það var talað um hækkun en ég vissi þó ekki hversu mikla. Talað var um að hækkun yrði í samgöngumálum. Það er svona lagað sem mér finnst vanta, almennt tal, almenn línusetning í fjármálastefnunni, sem er augljóslega það sem við gerum hérna dagsdaglega þótt sé ekki talað sérstaklega um það í lögum um opinber fjármál. Aðalhlutverk Alþingis er að fara vel með almannafé. Til þess erum við hérna. Fjárlög.