146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[23:11]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég hjó eftir því í ræðu hv. þingmanns að 72 milljarðar af vaxtatekjum sem verða til hér á landi runnu til ríkustu 10% landsmanna. Þetta er skuggalega nálægt þeirri tölu sem ríkissjóður borgar á ári í vaxtakostnað. Mig langar því að spyrja hv. þingmann hvaða lærdóm sé hægt að draga af þessu. Hvaða skoðun hefur hv. þingmaður á vaxtastiginu í landinu almennt? Það verður einmitt til þess að mikill hluti ríkisútgjalda á hverju ári rennur til þessara 10% landsmanna, auk reyndar lífeyrissjóða og annarra sjóða. Það er ýmis skipting á því. Þetta eru líka um það bil 10% af heildarútgjöldum ríkissjóðs á hverju ári.

Ég spyr að þessu í ákveðnu samhengi, í samhengi við það að aðhald ríkisstjórnarinnar virðist fyrst og fremst snúast um aðhald á útgjöldum sem gagnast almenningi en lítið raunverulegt aðhald í vöxtum þeim sem eru greiddir til auðmanna.

Það er nefnilega áhugavert að velta því fyrir sér í þessu samhengi hvort þessi fjármálastefna gæti ekki einmitt verið töluvert betri ef í henni væri miklu skýrari greining á efnahagshorfum næstu fimm árin, með það fyrir augum að horfa hugsanlega til annarra þátta en bara þeirra hver afgangurinn verður eftir hvert ár eftir að búið er að borga fyrir einhverjar nauðsynjar, og jú vaxtakostnað.

Hvaða annarra þátta gætum við tekið tillit til og með hvaða hætti ættum við að reyna að strúktúrera þetta?