146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[23:13]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Hv. þingmaður spyr hvort fjármálastefnan gæti orðið betri ef tekið væri tillit til ákveðinna þátta. Ég held að fjármálastefnan gæti orðið betri ef ég og hv. þingmaður færum saman í sumarbústað yfir helgi og kláruðum þetta. (BHar: Þarf ekki meiri tíma en það?) Það eru til ýmsar tölur. Á endanum snýst þetta um stefnu eins og ég var að koma hér að.

Jú, það er rétt sem hv. þingmaður nefnir. Það sem mér finnst vera að í þessu, eins og ég var að reyna að koma að í máli mínu, er þessi varðstaða um að það megi ekki hrófla við skattkerfinu, megi ekki nýta það til tekjujöfnunar, t.d. þegar kemur að fjármagnstekjum sem hv. þingmaður kom inn á. Það ætti akkúrat að gera það þannig. Ég hef þá einföldu sýn að til að byggja réttlátt þjóðfélag, svo ég vitni nú í ágætislag, þurfi að horfa til samfélagsins alls. Það þurfi að horfa til getu fólks til að leggja til samneyslunnar. Samneyslan er orðin nánast skammaryrði í munni margra í dag.

Mér finnst fjármálastefnan bera öll þess merki að hún sé teiknuð upp með hagsmuni þeirra sem best hafa það í huga. Það má ekki hrófla við henni á þann hátt að þeir leggi meira til samneyslunnar sem nýtist þeim sem hafa það ekki alveg eins gott.

Þannig að jú, ég er sammála þeim spurningum sem hv. þingmaður lagði fyrir mig og vona að ég hafi komið inn á. Hann kemur þá kannski inn á það í öðru andsvari sínu hafi ég gleymt einhverju.