146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[23:43]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég hafði ekki gleymt því að hv. þingmaður er fyrrverandi fjármálaráðherra og ég hef áður í ræðu sagt að ég dáðist á þeim tíma að því hvað hann þorði að taka ákvarðanir í mörgum umdeildum málum, sumar þeirra hafa reynst vera rangar og aðrar réttar, en það sem var rétt í hans málafærslu var það að hann tók ákvarðanir, hann þorði að taka ákvarðanir þegar allt þjóðfélagið var í mikilli óvissu.

Nú erum við hins vegar að stýra þessu og reyna að stýra þessu yfir á kyrrari vötn. Ég tek undir með hv. þingmanni að það er afar mikilvægt að hér séu minni skuldir, minni skuldir einstaklinga, minni skuldir fyrirtækja. Ég segi líka minni skuldir ríkis og sveitarfélaga. Það er grunnurinn undir því að við getum lækkað vexti og það mun nýtast öllum þegnum samfélagsins.