146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[23:44]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það á örugglega eftir að koma fyrir hjá núverandi hæstv. fjármálaráðherra að hann tekur einhverjar ákvarðanir, vonandi gerir hann það. Ég er sammála því, það er afar mikilvægt að stjórnmálamenn geti tekið ákvarðanir, þeir lyddist ekki bara einhvern veginn áfram og ekkert gangi undan þeim. Það að taka ákvarðanir býður þeirri hættu heim að þær verði ekki endilega allar réttar eða „réttar“ í skilningi þess að síðar kemur kannski í ljós að sumt reynist betur en annað. Það er bara gangur hlutanna.

Auðvitað fögnum við því að það eru ekki á neinn hátt sambærilegar aðstæður og voru hér fyrstu árin eftir hrun, skárra væri það nú. Vonandi á núverandi kynslóð íslenskra stjórnmálamanna og helst nokkrar í viðbót aldrei eftir að upplifa sambærilega hluti. Mér finnst það a.m.k. algert hámark að leggja slíkt á menn einu sinni á ævinni, að ganga í gegnum það sem þá gerðist. Við fögnum því að vera í rólegra umhverfi að ræða um þessa hluti. Það breytir ekki hinu að við þurfum að huga að því hvar (Forseti hringir.) Ísland er statt eftir þetta langa erfiða tímabil. Það er kannski aðal gagnrýnisþáttur minn að mér finnst menn vera algerlega sofandi fyrir því. (Forseti hringir.) Það er bara einhver excel-hugsun um að það skipti öllu máli að laga skuldahlutföll. (Forseti hringir.) Já, já, mikilvægt sem það er. En það þarf líka að byggja upp á Íslandi, hæstv. ráðherra.