146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[23:47]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Nú kann það að vera að lögin um opinber fjármál séu sumpart á gráu svæði gagnvart stjórnarskránni. Það er rétt. En þá hafa menn einfaldlega gert þau mistök að ganga of langt. Því að það er alveg skýrt að Alþingi hefur ekki í valdi sínu að afsala sér fjárveitingavaldinu. Alþingi hefur ekki í valdi sínu að afsala sér skattlagningarvaldinu — nema að breyta stjórnarskránni fyrst. Það er þannig. Í reynd hlýtur það að þýða að Alþingi getur jafnvel meðvitað, að því marki sem það telur sig hafa fært yfir til framkvæmdarvaldsins skiptingarhlutverk á þeim fjárveitingum sem það hefur ákveðið, tekið það til sín aftur hvenær sem er. Við ræddum þetta svolítið við afgreiðslu fjárlaga nú í desember. Ég var og er þeirrar skoðunar að ef til dæmis fjárlaganefnd setur í nefndarálit sitt bein fyrirmæli (Forseti hringir.) til framkvæmdarvaldsins, hvað sem líður öllum sundurliðunum í fylgiskjölum, þá ráði það. Það hlýtur að vera þannig. Stjórnarskráin passar upp á það.