146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[23:49]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Að sjálfsögðu breytir Alþingi bara þessum lögum ef það verður niðurstaðan. Mér skilst meira að segja að umboðsmaður Alþingis hafi komið með ábendingar í þeim efnum sem séu til skoðunar í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og það liggi jafnvel nú þegar fyrir að gera þurfi einhverjar breytingar. Eins og ég segi held ég að stjórnarskráin sé okkur alltaf vörn í því, að því marki sem við kjósum, að taka þá í okkar hendur eitthvað sem samkvæmt almennu aðferðafræðinni á að vera fólgið í skiptingarvaldi ráðuneyta. Við getum það og þá gerum við það bara. Þá bara setjum við það inn í nefndarálit fjárlaganefndar að þetta skuli vera svona. Eða þá með lögum. Ég vil þó taka fram, til að það misskiljist ekki, að ég er ekki talsmaður ábyrgðarleysis eða agaleysis og þess að fjárlög séu afgreidd sitt á hvað svona og hinsegin á hverju ári. Ég er stuðningsmaður áætlanagerðar, að menn plani fram í tímann og hafi aga. En ég vil heldur ekki gelda hagstjórnarmöguleika (Forseti hringir.) Alþingis og ríkisfjármálanna. Það er óendanlega dýrmætt fyrir samfélagið að geta beitt þeim sérstaklega til að fara með það í gegnum kreppur eins mjúklega og mögulegt er.