146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[23:51]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar til að setja upp ákveðna sviðsmynd. Segjum sem svo að innviðauppbygging yrði fjármögnuð með bankasölu eins og gefið var til kynna í fyrri ræðum, að bankarnir yrðu seldir, eða þá alla vega með vaxtamismuninum. Það færi á ákveðinn hátt gegn fjármálamálastefnunni sjálfri vegna ákvæðisins um einskiptisfjármagn og hvernig eigi að fara með það.

Ég velti fyrir mér hvar eigi að fá pening fyrir fjármögnun innviðauppbyggingar.

Ef við hugsum okkur aftur á móti að við gætum notað alla söluna á bönkunum til að borga niður skuldir og langtímaskuldbindingar og við kæmumst á þann stað sem það gæfi okkur, 450 milljarðar sem eru í bönkunum inn í langtímaskuldbindingar og niðurfærslu skulda, þá værum við í mjög góðri stöðu. Ég gæti mögulega kvittað undir það sem stefnu. En ég veit ekki hvort þessi stefna (Forseti hringir.) fer í þá átt.

Ég vildi átta mig á því hvort þetta sé mögulega umhverfið sem við lesum úr þessari stefnu án þess að það sé sagt beint.