146. löggjafarþing — 50. fundur,  29. mars 2017.

rannsókn á einkavæðingu Fjárfestingarbanka atvinnulífsins, Landsbankans og Búnaðarbankans.

[15:03]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég hafði hugsað mér að taka undir spurningar hv. þm. Svandísar Svavarsdóttur, þingflokksformanns Vinstri grænna, til forseta um hvað hann hyggist gera varðandi samþykkt Alþingis frá haustinu 2012 um að rannsaka einkavæðingu Fjárfestingarbanka atvinnulífsins, Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands. Forseti hefur stungið upp á því að þingflokksformenn ræði þetta á fundi sínum og þá bið ég forseta um að sá fundur verði haldinn sem fyrst því að þessi rannsókn sem er skýr og afdráttarlaus, en mjög afmörkuð, kallar einmitt á að þessari samþykkt Alþingis sem gerð var haustið 2012 verði fylgt strax eftir.