146. löggjafarþing — 50. fundur,  29. mars 2017.

störf þingsins.

[15:04]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegi forseti. Mig langar að nýta þennan lið, störf þingsins, til að eiga orðastað við hv. þm. Teit Björn Einarsson vegna orða sem hann lét falla undir sama lið í gær. Hv. þingmaður kom inn á stöðuna í sjávarútveginum í máli sínu og hvort ekki væri raunverulegur kostur ef menn vildu almennt treysta stöðu þess atvinnuvegar að lækka veiðigjöldin. Hæstv. sjávarútvegsráðherra svaraði því jafnharðan í fjölmiðlum í gær. En mig langar að spyrja hv. þm. Teit Björn Einarsson nánar út í orð hans.

Frá árslokum 2008 til ársloka 2015 jókst eigið fé sjávarútvegsfyrirtækja um yfir 300 milljarða kr. Arðurinn var 54,3 milljarðar til eigenda á sama tímabili. Hagnaður íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja árið 2015 var 70 milljarðar kr. Hreinn hagnaður var 45,4 milljarðar kr.

Aðgerðir síðustu ríkisstjórnar, sem lét verða eitt sitt fyrsta verk á sumarþingi árið 2013 að lækka álögur á sjávarútveginn, skertu tekjur ríkissjóðs um 11–13 milljarða kr. á ári í þau rúmu þrjú ár sem ríkisstjórnin sat, sem eru þá 33–39 milljarðar kr., sem ég er viss um að hv. þm. Teitur Björn Einarsson hefði alveg verið til í að hafa núna þegar hann ræðir við kjósendur sína í kjördæminu, t.d. um vegagerð.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Hversu mikið telur hann að eigi að lækka veiðigjöldin? Ef hann vill tengja veiðigjöldin gengisþróun, telur hann þá að eigi að hækka veiðigjöldin ef staða í gengis- og gjaldmiðlamálum skánar? Ég sé að hv. þingmanni er mjög skemmt á geiflum hans hér og ég hlakka til að hlusta á hann.