146. löggjafarþing — 50. fundur,  29. mars 2017.

störf þingsins.

[15:06]
Horfa

Teitur Björn Einarsson (S):

Frú forseti. Ég þakka fyrir það tækifæri að koma upp undir liðnum um störf þingsins og gera grein fyrir því sem ég nefndi í gær. Ég heyri ekki á máli hv. þm. Kolbeins Óttarssonar Proppés að hann deili með mér áhyggjum af slæmri stöðu í atvinnulífinu víðs vegar um landið, að hann hafi áhyggjur af starfsöryggi starfsfólks hundruðum saman ef ekki þúsundum í landinu, að hann hafi áhyggjur af því að það sé að koma los í byggðafestu víðs vegar í landinu, en þetta voru þau atriði sem ég nefndi í gær. Ég hef verulegar áhyggjur af þessu máli og ég velti því upp. Að sjálfsögðu er veiðigjald skattur eins og hver önnur gjöld, eins og tryggingagjöld. Þegar rekstrarskilyrðin eru svona, þegar þessi ógn stendur fyrir framan okkur á þennan hátt er sjálfsagt að við ræðum það, en ég heyri alveg á máli hv. þingmanns hver skoðun hans í þessu er.

Ég ætla að leyfa mér að taka saman í örstuttu máli rök sem hafa komið fram í umræðunni á undanförnum árum sem gjalda varhuga við því að innheimta of há veiðigjöld. Þau eru eitthvað á þessa leið: Þetta er sérstakur skattur á sjávarútveginn, dregur úr samkeppnishæfni greinarinnar á alþjóðamörkuðum, leiðir til samþjöppunar í sjávarútvegi, fækkar einyrkjum, dregur úr getu sjávarútvegs til að lækka skuldir sínar, dregur úr getu sjávarútvegs til að fjárfesta í tækniframförum og nýsköpun og leiðir til verri afkomu í sjávarútvegi.

Ég tók reyndar ekki þennan rökstuðning saman, það gerði hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon fyrir 20 árum á ráðstefnu á Akureyri. Þetta voru rök hans þá. Hann kann að hafa skipt um skoðun, það má vel vera, en þau rök standa, þau voru rétt og eru enn þá rétt. Það sem hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir kallaði barnaskap í gær kalla ég dauðans alvörumál.